Skólaheilsugæsla

Skólaheilsugæsla í Víðistaðaskóla

Samkvæmt lögum nr. 97/1990 eiga heilsugæslustöðvar að annast heilsugæslu í skólum. Skólahjúkrunarfræðingur er þess vegna starfsmenn Heilsugæslustöðvarinnar Fjarðar í Hafnarfirði. Skólahjúkrunarfræðingur er með fastan viðverutíma í skólanum.

Hjúkrunarfræðingar við Víðistaðaskóla eru Ilmur Dögg og Svanhildur Lísa. Vinnutími þeirra er: mán og fim frá kl 08:30-14:00 og þri og mið frá kl 8:30-12:00.

Hlutverk heilsugæslu í skólum er að sinna heilsuvernd nemenda og hún er framhald af ung- og smábarnavernd. Starfsemi heilsuverndar grunnskólabarna er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Hún er meðal annars fólgin í reglubundnum skimunum og eftirliti, ónæmisaðgerðum, heilbrigðisfræðslu og teymisvinnu kringum einstök mál.

Markmiðið með heilsugæslu í skólum er að stuðla að því að börn fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Til þess að vinna að markmiði þessu er fylgst með börnunum svo að möguleg frávik finnist og viðeigandi ráðstafanir verði gerðar sem fyrst. Áhersla er lögð á að fyrst og fremst beri foreldrar ábyrgð á heilsu og þroska barna sinna, en starfsfólk heilsugæslu í skólum fræði, hvetji og styðji foreldra í hlutverki sínu. Á heimasíðu Landlæknis má finna nánari upplýsingar um heilsuvernd grunnskólabarna, bólusetningar(ónæmisaðgerðir), skimanir(skólaskoðun) og ráðleggingar til foreldra um heilbrigðistengd málefni.

http://www.landlaeknir.is/

Slys og óhöpp á skólatíma

Hlutverk hjúkrunarfræðings er ekki að vera með opna móttöku fyrir erindi sem ekki teljast bráð.

Hjúkrunarfræðingur veitir fyrstu hjálp þegar alvarlegri slys verða í skólanum og er starfsfólki skólans til stuðnings og ráðgjafar þegar upp koma veikindi og slys hjá nemendum, á þeim tíma sem hjúkrunarfræðingur er við störf.

Ef smáslys eða óhapp verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp.

Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni. Foreldrum er bent á að snúa sér til heimilislæknis með heilsufarsmál sem ekki teljast til heilsuverndar grunnskólabarna.

Lyfjagjafir í skólum

Í tilmælum frá landlækni um lyfjagjafir í grunnskólum kemur meðal annars fram að foreldrum/forráðamönnum beri að afhenda hjúkrunarfræðingum þau lyf sem börn/unglingar eigi að fá í skólanum og að börn/unglingar skuli aldrei vera sendiboðar með lyf.

http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/dreifibref/nanar/item14865/Dreifibref-Nr--7/2010--Lyfjagjafir-i-grunnskolum

Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Foreldrar /forráðamenn þeirra barna/unglinga sem þurfa að taka lyf á skólatíma eru vinsamlega beðnir að hafa samband við hjúkrunarfræðinga skólans um hvernig best verði komið til móts við þessi tilmæli.

Netfang skólaheilsugæslunnar er vidistadaskoli@heilsugaeslan.is



Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is