Eineltisáætlun Víðistaðaskóla

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Umsjónarkennari er alltaf ábyrgur fyrir að leysa og uppræta eineltismál sem upp koma í hans umsjónarbekk. Í forföllum umsjónarkennara getur námsráðgjafi / stjórnandi hafði vinnslu í málinu án þess að upplýsa foreldri í upphafi könnunar. Mikilvægt er að byrja strax að vinna að máli þegar grunur um einelti vaknar.

Skref 1. Grunur um einelti

Tilkynnið grun um einelti til umsjónarkennara, hér PDF útgáfa hér

Mjög mikilvægt er að umsjónarkennari sendi afrit af tilkynningu, rafrænt, til nemendaverndarráðs um leið og hún berst, hér

Umsjónarkennari/ar ræðir við meintan þolanda/endur, hér

Umsjónarkennari ræðir við foreldra meints þolanda/enda ef ástæða þykir til.
Umsjónarkennari ræðir við geranda/ur, hér

Umsjónarkennari ræðir við foreldra meints geranda/enda ef ástæða þykir til. 

Ef vinnsla máls leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra meints þolanda. Á sama tíma eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til lausnar á vandanum eftir eðli hvers máls. Öll málsgögn eru send til nemendaverndarráðs til yfirferðar.

Skref 2. Grunur um einelti

Ef um rökstuddan grun um einelti er að ræða er málinu vísað til nemendaverndarráðs að lokinni könnun á skrefi 1 til frekari úrvinnslu. Nemendaverndarráð setur málið í ferli og skipar tilsjónarmann með umsjónarkennaranum til að vinna áfram að málinu. Tilsjónarmaður máls getur kallað annað starfsfólk til telji hann þörf á því. Mikilvægt er að gott upplýsingaflæði sé á milli þeirra sem að málinu koma.

Tilsjónarmaður og umsjónarkennari vinna samkvæmt aðgerðaráætlun, hér

Stefnuyfirlýsing

Starfsfólk Víðistaðaskóla lýsir því yfir að einelti verður ekki liðið í skólanum. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja eða stöðva og leysa einelti á farsælan hátt. Í Víðistaðaskóla er starfað í anda leiðarljósanna Ábyrgð, Virðing, Vinátta. Í skólanum eru skýrar reglur og vinnuferli ef upp kemur einelti. Öflugar forvarnir gegn einelti byrja við upphaf skólagöngu og er viðhaldið til loka skólagöngu nemenda.

Skólabragur

Í Víðistaðaskóla leggjum við metnað í að skapa vingjarnlegt andrúmsloft sem byggist á gagnkvæmri virðingu. Áhersla er á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Við viljum rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Þannig teljum við að lagður sé grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

Skilgreining á einelti

Einelti er skilgreint sem síendurtekin og langvarandi hegðun sem er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður. Einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun og hótunum af ýmsu tagi sem kemur þolanda illa. Einnig með markvissri einangrun eða útskúfun.

Birtingarmyndir eineltis geta verið fjölmargar bæði duldar og sýnilegar. Einelti getur falist í félagslegri útskúfun þannig að barn sem verður fyrir henni er ekki fullgildur þátttakandi í félagsskap eða leik. Einelti getur einnig komið fram með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi  eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur og eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Stríðni, átök og einstaka ágreiningur milli nemenda þarf ekki að teljast til eineltis. Það skiptir máli að um endurtekningu sé að ræða og að eineltið vari í lengri tíma. Það eru meiri líkur á að einelti þróist ef þolandi stendur höllum fæti andspænis geranda. Það eru minni líkur á að einelti þróist þegar álíka sterkir einstaklingar kljást þó svo að það sé endurtekið í einhvern tíma.

Rafrænt einelti er orðið algengara í dag samfara mikilli netnotkun hjá börnum og unglingum. Rafrænt einelti á sér aðallega stað á samfélagsmiðlum og í tölvuleikjum,  birtingarmyndir þess geta verið margvíslegar. Mikilvægt er að foreldrar kenni börnum sínum ábyrga netnotkun og fylgist vel með hvað börnin þeirra eru að gera á netinu.

Dæmi um einelti:

 • Munnlegt ofbeldi er t.d. uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir, þeir sem beita eineltinu hvísla hugsanlega um fórnarlambið, flissa eða hlægja.
 • Félagslegt ofbeldi er t.d. þegar einhver er skilinn útundan í leik, er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum.
 • Andlegt ofbeldi er t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stýrir gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
 • Munnlegt, félagslegt og andlegt ofbeldi er mun útbreiddara en líkamlegt og efnislegt, auðveldara er að dylja það, neita að hafa átt hlut að máli og snúa því upp á þolandann.
 • Efnislegt ofbeldi er t.d. þannig að eigum fórnarlambsins er stolið, skólabókum, skólatösku, íþróttafatnaði, reiðhjóli, peningum, eða þær eru eyðilagðar.
 •  Líkamlegt ofbeldi er t.d. þegar gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað, sparkað í það, það klipið eða slegið.
 • Rafrænt einelti t.d. er notað um þá tegund eineltis þegar internetið og/eða
  GSM símar eru notaðir til að koma niðrandi og oft á tíðum meiðandi
  upplýsingum um einstakling á framfæri.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Bekkjarsáttmáli

Mjög mikilvægt er að nemendur ásamt umsjónarkennara búi til bekkjarsáttmála í byrjun skólaárs sem er sýnilegur í heimastofu.

Fræðsla um einelti

Umsjónarkennarar fræða nemendur um einelti og afleiðingar þess jafnt og þétt yfir allt skólaárið. Umsjónarkennarar nýta Vinavikuna til þess að efla samskiptin.

Hópefli

Umsjónarkennari leitast við að styrkja bekkjarhópinn sem heild með hópefli. Umsjónarkennari gætir þess að allir nemendur séu hluti af bekknum og enginn útundan. Ef umsjónarkennari verður var við útilokun eða klíkumyndun leitar hann leiða til þess að uppræta slíkt atferli.

Fylgjast með

Einelti þrífst vegna aðgerðarleysis fjöldans. Þess vegna er mikilvægt að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Kennarar og starfsfólk fylgist ávallt vel með líðan nemenda og breytingum í félagahópi.

Bekkjarfundir

Bekkjarfundir skapa gott tækifæri til að ræða og leysa mál.

Kannanir

Umsjónarkennarar leggja fyrir samskipta- tengsla- eða eineltiskönnun til að fylgjast með nemendahópnum. Tengslakönnun er gott tæki til þess að sjá hvaða nemendur eru einangraðir félagslega.


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is