Skólinn

Víðistaðaskóli

Víðistaðaskóli er staðsettur í einstöku umhverfi en skólinn kúrir í hrauninu, innan um mjög fjölbreytta náttúru og manngerð svæði sem eru til gagns og ánægju og nýtast vel við útikennslu. Víðistaðaskóli er heildstæður grunnskóli með bekkjardeildir frá 1. – 10. bekk.

Víðistaðaskóli var stofnaður þann 16. september árið 1970 en þá var skólinn settur í fyrsta sinn. Skólinn er því hálfrar aldar gamall í ár 2020. Skólinn var þriðji grunnskólinn sem stofnaður var í Hafnarfirði. Kennsla fór fram í nýbyggðu skólahúsnæði en einnig fór hún fram í öðru húsnæði sem skólinn hafði til afnota í bænum. Skólinn þjónaði Vesturbæ Hafnarfjarðar ásamt því að þjóna nýbyggðum Norðurbæ en þangað fluttist mikið af ungu fólki með börn. Í kringum 1980 var Víðistaðaskóli fjölmennasti skóli á Íslandi með 1232 nemendur þegar mest var. Á þeim 50 árum sem skólinn hefur starfað hefur húsnæðið tekið miklum breytingum. Hann var byggður í þremur áföngum og haustið 2005 var nýjasti hluti skólans tekinn í notkun. Við skólann hafa starfað fjórir skólastjórar. Fyrsti skólastjórinn var Hörður Zophaníasson en hann starfaði í 22 ár, næst var Eggert Leví skólastjóri í 2 ár, síðan Sigurður Björgvinsson sem starfaði í 19 ár eða til 2013 en þá tók fyrsta konan, Hrönn Bergþórsdóttir við skólastjórastarfinu og er hún núverandi skólastjóri.

Árið 2010 stóð skólinn frammi fyrir miklum breytingum þegar Víðistaðaskóli og Engidalsskóli voru sameinaðir undir einni skólastjórn en með tvö skólahúsnæði til afnota. Þetta var gert í hagræðingarskyni á þeim tíma. Vorið 2020 voru skólarnir svo aftur aðskildir. Engidalsskóli er fyrir nemendur frá 1. – 7. bekk í Norðurbæ Hafnarfjarðar norðan Hjallabrautar. Í Víðistaðaskóla koma því nemendur úr því hverfi í 8. bekk.

Skólinn starfar eins og lög gera ráð fyrir frá ágúst til júní og er allt skólaárið ein önn. Skólanum er skipt í þrjú stig, yngsta-, mið- og unglingastig. Skólinn er teymiskennsluskóli og því er í flestum árgöngum ein bekkjardeild ýmist með 2 - 4 umsjónarkennurum eftir fjölda nemenda. en áður var í 9. og 10. bekk svokallað ferðakerfi, hægferð, miðferð og hraðferð. Það kerfi hefur verið lagt af vegna fækkunar nemenda. Í vetur eru 540 nemendur í skólanum. Við skólann er frístundaheimilið Hraunkot/Hraunból fyrir nemendur í 1. – 4. bekk sem rekið er af skólanum. Við skólann er einnig starfrækt félagsmiðstöðin Hraunið sem er öflug miðstöð með félagsstarf fyrir mið- og unglingastig ásamt fræðslu fyrir nemendur um ýmis þörf málefni sem valin eru lýðræðislega hverju sinni.

Við skólann starfa rúmlega 100 starfsmenn. Í stjórnendateymi skólans er skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og þrír deildarstjórar, fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig ásamt deildarstjóra stoðþjónustu, deildarstjóra tómstundamiðstöðvar skólans og deildarstjóra UT vegna innleiðingar spjaldtölva. Við skólann starfa námsráðgjafar, þroskaþjálfar og hjúkrunarfræðingur hefur viðveru á morgnana. Skólinn hefur aðgang að þjónustu sálfræðings.

Leiðarljós Víðistaðaskóla eru: Ábyrgð – Virðing – Vinátta og er skólastarfið í anda þeirra. Hlutverk grunnskólans er ákvarðað í lögum um grunnskóla en þar segir í 2. grein: „Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun”. Í Víðistaðaskóla er lögð áherslu á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Við vinnum sérstaklega í anda lýðræðis og höfum haft sérstök þing þar sem ýmis mál eru rædd og þessi vinna er einnig tengd Barnasáttmálanum. Að auki er skólinn grænfánaskóli og fékk grænfánann í fjórða sinn nú á afmæli skólans og degi náttúrunnar þann 16. september. Skólinn er einnig heilsueflandi grunnskóli og leggjum við áherslu á heilsu og heilbrigði allra sem í skólanum starfa nemenda og starfsmanna.

Við ræktum með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Með því teljum við að lagður sé grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Þá viljum við veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð og reglusemi sem stuðlar að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.

 


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is