Saga skólans

Víðistaðaskóli var stofnaður 1970. Skólinn var þriðji grunnskólinn sem stofnaður var í Hafnarfirði. Árið 2010 var Engidalsskóli sameinaður Víðistaðaskóla undir einni skólastjórn. Tvær ástæður liggja að baki þeirri breytingu, sem ráðist var í, bæði hefur nemendum fækkað í báðum hverfum og vegna hagræðingarkröfu í fjárhagsáætlun bæjarins.

Báðar starfsstöðvar Víðistaðaskóla eru staðsettar í einstöku umhverfi Hafnarfjarðar. Skólarnir kúra í hrauninu, umvafðir fjölbreyttri náttúru með fallegum svæðum sem henta vel til útivistar. Víðistaðaskóli er heildstæður grunnskóli með bekkjardeildir frá 1. – 10. bekk. Skólinn er starfræktur á tveimur starfsstöðvum. 1. – 4. bekkur er í starfsstöðinni í Engidal fyrir nemendur í Norðurbæ norðan Hjallabrautar en í starfsstöðinni við Víðistaðatún er 1. – 10. bekkur. Í starfstöðina við Víðistaðatún koma því nemendur úr Engidal í 5. bekk. Það má segja að þannig sé skólinn að fara til baka til upphafsáranna en hann tók þá við nemendum í 5. bekk á meðan Engidalsskóli, sem stofnsettur var árið 1978 byggðist upp í að geta tekið við nemendum upp í 7. bekk. Hjördís Guðbjörnsdóttir var fyrsti skólastjóri Engidalsskóla og starfaði um langt árabil en Auður Hrólfsdóttir tók við af henni og var skólastjóri fram til þess að skólarnir voru sameinaðir.

Fyrstu starfsár Víðistaðaskóla fór kennslan fram í nýbyggðu skólahúsnæði en einnig í húsnæði sem skólinn hafði til afnota annarsstaðar í bænum. Skólinn þjónaði Vesturbæ Hafnarfjarðar og nýbyggðum Norðurbæ en þangað fluttist mikið af ungu barnafólki. Í kringum 1980 var Víðistaðaskóli fjölmennasti skóli á Íslandi með 1232 nemendur þegar mest var og var skólinn tví- til þrísetinn. Á þeim rúmlega 45 árum sem skólinn hefur starfað hefur húsnæðið tekið miklum breytingum. Hann var byggður í þremur áföngum og haustið 2005 var nýjasti hluti skólans tekinn í notkun. Við skólann hafa starfað fjórir skólastjórar. Fyrsti skólastjórinn var Hörður Zophaníasson sem var starfandi skólastjóri í 22 ár. Við starfinu tók Eggert Leví og starfaði í tæp tvö ár en þá tók Sigurður Björgvinsson við skólastjórastarfinu og sinnti því í 19 ár. Hrönn Bergþórsdóttir er núverandi skólastjóri Víðistaðaskóla og hefur starfað frá árinu 2013. 

Skólinn starfar eins og lög gera ráð fyrir frá ágúst til júní. Skólaárinu er skipt í tvær annir sem skiptast á miðju skólaári. Skólanum er skipt í  þrjú stig, yngsta stig, miðstig og unglingastig. Bekkjardeildir eru frá tveimur upp í fimm eftir árgöngum. Í vetur eru um 666 nemendur í skólanum. Við skólann er starfrækt tómstundamiðstöð, þar eru frístundaheimili fyrir nemendur í 1. – 4. bekk í báðum starfsstöðvum í Álfakoti í Engidal og í Hraunkoti við Víðistaðatún. Einnig er innan tónmstundamiðstöðvarinnar öflug félagsmiðstöð, Hraunið fyrir nemendur á mið- og unglingastigi. Verkefnisstjóri tómstundamiðstöðvarinnar er Guðrún Erla Hólmarsdóttir. Víðistaðaskóli er eini skólinn á landinu sem rekur skólalúðrasveit á eigin vegum sem kemur fram á ýmsum viðburðum hjá skólanum og bænum.  Stjórnandi skólalúðrasveitarinnar er Vigdís Klara Aradóttir.

Við skólann starfa rúmlega 120 starfsmenn. Í stjórnendateymi skólans er skólastjóri, tveir aðstoðarskólastjórar, einn á hvorri starfsstöð sem jafnframt eru deildarstjórar yngsta stigs. Deildarstjóri er einnig á miðstigi og annar á unglingastigi ásamt deildarstjóra sérkennslu. Verkefnisstjóri stýrir starfi tómstundamiðstöðvar. Við skólann starfa einnig námsráðgjafar, sálfræðingur, þroskaþjálfar, hjúkrunarfræðingar ásamt skólaliðum, stuðningsfulltrúum og frístundaleiðbeinendum.

Leiðarljós Víðistaðaskóla eru: Ábyrgð – Virðing – Vinátta og er allt starf skólans í anda þeirra. Hlutverk grunnskólans er ákvarðað í lögum um grunnskóla en þar segir í 2. grein: „Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun”. Í Víðistaðaskóla er lögð áherslu á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Lögð er áhersla á að rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Með því er lagður grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Þá er lögð áhersla á að veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar  með nútímatækni og hæfni til að nýta hana sem ýtir undir stöðuga viðleitni til menntunar og þroska svo nemendur geti nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.

 


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is