Hlutverk kennara og umsjónarkennara

Meginhlutverk kennara samkvæmt aðalnámskrá gunnskóla frá 2011 er kennslu- og uppeldisfræðilegt starf með nemendum, að vekja og viðhalda áhuga þeirra á námi, veita þeim handleiðslu á fjölbreyttan hátt og stuðla að því að í skólastofunni ríki góður vinnufriður og starfsandi. Skapa á nemendum fjölbreyttar námsaðstæður sem lagar sig að þörfum einstakra nemenda í skóla án aðgreiningar.

Umsjónarkennarar hafa veigamiklu hlutverki að gegna skv. 2. mgr. 133. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, sem fjallar um rétt nemenda:

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila”.
Umsjónarkennarinn er lykilmanneskja í öllu skólastarfinu.  Hann er sá aðili innan skólans sem þekkir sína nemendur einna best og getur veitt þeim mestan stuðning í náminu. Hann getur einnig vísað nemendum sínum til fagfólks innan skólans, s.s. hjúkrunarfræðings eða námsráðgjafa. Um hlutverk umsjónarkennara segir í aðalnámskrá – almennum hluta frá 2006.

“Hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og einnig fylgist hann náið með námi nemenda sinna og þroska og breytingum á högum og atferli nemenda sem skipt geta máli hvað varðar frammistöðu og líðan þeirra í skólanum. Hann leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar þá og ráðleggur þeim um persónuleg mál. Umsjónarkennarar og námsráðgjafar gegna að þessu leyti mjög mikilvægu hlutverki“.

Umsjónarkennari er helsti tengiliður skólans við forráðamenn nemenda.  Við hvetjum foreldra til að nýta sér viðtalstíma umsjónarkennara vel og halda uppi góðum samskiptum, því það er líklegast til að leggja traustan grunn að skólagöngu barnsins. Vikulega senda umsjónarkennarar heim upplýsingar um ástundun nemenda sinna.


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is