Lýðræðisnefnd Unglingadeildar 2019

Í Víðistaðaskóla er unnið í anda nemendalýðræðis. Þann 2. október 2018 var fyrsta lýðræðisþing unglingadeildar  haldið í samstarfi við félagsmiðstöðina Hraunið.

Umræðuefnið á Lýðræðisþinginu 2018 var skólabragur, námið og tómstundir og félagsstörf.

Þingið hófst þannig að allir nemendur í 8.-10. bekk komu í Hátíðarsal skólans þar sem nemendur fengu kynningu á efni þingsins og vinnubrögðum á þinginu. Nemendur fengu útskýringu á hugtakinu lýðræði og hvað lýðræðisleg vinnubrögð eru. Eftir þingið var stofnuð lýðræðisnefnd Víðistaðaskóla og var einn fulltrúi úr hverjum bekk kosinn í nefndina.

Fundað var nokkrum sinnum með fulltrúum lýðræðisnefndar þar sem farið var yfir hugmyndirnar sem komu fram á skólaþinginu og þær flokkaðar í hvað væri raunhæft og óraunhæft. 

Fulltrúum nefndarinnar þóttu þessi nefndarstörf ansi mikilvæg og þótti gott að sitja fundi með skólastjóranum, deildastjóra unglingastigs og aðstoðarverkefnastjóra Hraunsins og ræða málin á jafningjagrundvelli.
Unnið var úr hugmyndunum frá þinginu og þær settar á veggspjald til að hengja á lýðræðisvegg skólans.  Undirbúin var einnig kynning á niðurstöðum þingsins fyrir nemendur skólans en fulltrúar lýðræðisnefndarinnar báru þungann af úrvinnslunni og kynntu hugmyndirnar.

Þriðjudaginn 12. febrúar 2019 komu allir í unglingadeildinni í hátíðarsal skólans þar sem fulltrúar lýðræðisnefndarinnar fóru yfir hvað hefði verið samþykkt að vinna að, hvað væri þegar búið að gera og hvað væri óraunhæft.

Nemendur og stjórnendur voru sammála um að þessi vinna í anda lýðræðis hefði verið bæði skemmtileg og fræðandi fyrir alla aðila.

Hugmyndin að þinginu kom upp í samtali starfsmanna  og var ákveðið að kýla verkefnið í gang.

Markmið verkefnisins:

· var að rödd nemenda myndi heyrast og að skoðanir þeirra skipti máli.

· Undirbúa nemendur undir líf í lýðræðisþjóðfélagi með því að vera og starfa í lýðræðissamfélagi í skólanum.

Þetta eru fyrstu skrefin í stórri sýn um nemendalýðræði.

Veggspjöldin frá Lýðræðisþinginu 2018-2019

56355287_807560419621366_8635428509096869888_o_157114772799656485540_807560566288018_5765317352279244800_o_157114772792956158289_594576957677851_3879691512354701312_o

Lýðræðisþing 2019 

Þann 2. október 2019 héldum við lýðræðisþing í annað skiptið þar sem umræðuefnið var Hvernig langar okkur að hafa skólann okkar, að innan og utan og Hvernig getur skólinn undirbúið ykkur frekar undir framtíðina? Hvaða kunnáttu þurfa nemendur inn í nútímasamfélag?

Þingið fór mjög vel fram, þingið var sett upp á svipaðan hátt og í fyrra en þar sem við erum grænafánaskóli notuðum við minna af pappír og skiluðu ritararnir inn niðurstöðum inn á Google classroom.  Næstu vikur mun nýja lýðræðisnefndin fara yfir tillögur þingsins og verður spennandi að sjá útkomuna.

Lýðræðisnefnd unglingadeildar á fyrsta fundi vetrarins þann 25.september í félagsmiðstöðinni Hrauninu.

Lýðræðisþing hjá miðstigi 2019 

Í ár ákváðum við einnig að bjóða upp á lýðræðisþing fyrir miðstig og var þingið einnig haldið 2. október.

Umræðuefnið hjá 5.-7.bekk í ár var Skólabragur og Tómstundir og félagsstarf. 

Þingið fór vel fram og var gaman að fylgjast með hópunum vinna, ritarar og hópstjórar stóðu sig vel og komu mikið af flottum tillögum frá krökkunum.  Lýðræðisnefnd miðstigs mun svo funda einnig á næstu vikum og fara yfir tillögurnar. 

Í nóvembermánuði ætlum við að halda í fyrsta skipti lýðræðisþing fyrir foreldra og er því spennandi lýðræðisvinna næstu vikur og mánuði hér í Víðistaðaskóla.



Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is