Eineltisáætlun Víðistaðaskóla

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Úr starfsáætlun skólans

Víðistaðaskóli leggur metnað í að skapa vingjarnlegt andrúmsloft í skólanum sem byggist á gagnkvæmri virðingu og skilningi á fjölbreytileika mannflórunnar. Áhersla er á að undirbúa nemendur undir framtíðina á lýðræðislegan hátt. Í Víðistaðaskóla viljum við rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þannig teljum við að lagður sé grundvöllur að sjálfstæðri hugsun nemenda og hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Við viljum veita nemendum góð tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni ásamt því að temja sér vinnubrögð og reglusemi sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Þannig geti nemendur orðið góðir þjóðfélagsþegnar og nýtt þau tækifæri sem lífið býður upp á.

Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Umsjónarkennari er alltaf ábyrgur fyrir að leysa og uppræta eineltismál sem upp koma í hans umsjónarbekk.

Skref 1. Þegar vaknar grunur um einelti

 •  Tilkynnist hann til umsjónarkennara, eyðublað 1 hér
  •  Umsjónarkennari sendir tilvísun til nemendaverndarráðs hér
 • Umsjónarkennari ræðir við þolanda, eyðublað 2 hér
 • Umsjónarkennari ræðir við geranda/ur, eyðublað 3 hér

 Skref 2. Rökstuddur grunur um einelti

 1. Umsjónarkennari ræðir við nemendur sem að málinu koma, eyðublað 4 hér
 2. Umsjónarkennari leitar til og upplýsir starfsfólk, kennara og aðra sem að nemendum koma um málið.
 3. Ítarleg könnun og greining á gögnum sem til eru um málið. Frekari upplýsinga aflað á eyðublaði 4.
 4. Hringt í foreldra bæði þolenda og gerenda.
  1. Foreldrum/forráðamönnum gerð grein fyrir þeirri aðstoð sem skólinn getur veitt nemandanum
  2. Ráðleggingar til foreldrar um hvað þeir geta gert til að aðstoða barn sitt.
  3. Foreldrum bent á þann möguleika að hægt sé að nýta aðstoð námsráðgjafa.

Ef frekari aðstoðar er þörf er málinu vísað til eineltis- forvarnarteymis skólans eyðublað 5 hér

 

Stefnuyfirlýsing

Starfsfólk Víðistaðaskóla lýsir því yfir að einelti eða annað ofbeldi verður ekki liðið í skólanum. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja og leysa slík mál á farsælan hátt. Víðistaðaskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Skólinn hefur skýrar reglur og vinnuferli um hvernig tekið er á einelti. Mestu skiptir árvekni og að stöðugt forvarnarstarf sé í gangi til þess að einelti komi síður upp. Fyrstu forvarnir gegn einelti byrja með fræðslu við upphaf skólagöngu. Það er markmið skólans að halda uppi öflugu forvarnarstarfi gegn einelti í 1. - 10. bekk.

Við skólann starfar eineltisteymi innan nemendaverndarráðs, sem skipað er fulltrúum stjórnenda, kennara og annars starfsfólks. 

Einelti

Einelti er endurtekið líkamlegt eða andlegt ofbeldi framkvæmt af einstaklingi eða hópi og látið bitna á einum eða fleiri einstaklingum.

Einelti felur í sér að nemandi er tekinn fyrir af einum eða fleiri nemendum með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun og hótunum af ýmsu tagi, sem kemur þolanda illa. Einnig með líkamlegri höfnun eða markvissri einangrun eða útskúfun.

Stríðni, átök og einstaka ágreiningur milli nemenda þarf ekki að teljast til eineltis. Það skiptir máli að um endurtekningu sé að ræða og að eineltið vari í lengri tíma. Það skiptir einnig máli að fórnarlambið stendur höllum fæti andspænis gerandanum. Það er ekki einelti þegar álíka sterkir einstaklingar kljást þó svo að það sé endurtekið í einhvern tíma. Nýjasta dæmið um einelti er rafrænt einelti sem vert er að vera mjög vakandi yfir.

Dæmi um einelti:

 • Munnlegt ofbeldi er t.d. uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir, þeir sem beita eineltinu hvísla hugsanlega um fórnarlambið, flissa eða hlægja.
 • Félagslegt ofbeldi er t.d. þegar einhver er skilinn útundan í leik, er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum.
 • Andlegt ofbeldi er t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stýrir gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
 • Munnlegt, félagslegt og andlegt ofbeldi er mun útbreiddara en líkamlegt og efnislegt, auðveldara er að dylja það, neita að hafa átt hlut að máli og snúa því upp á þolandann.
 • Efnislegt ofbeldi er t.d. þannig að eigum fórnarlambsins er stolið, skólabókum, skólatösku, íþróttafatnaði, reiðhjóli, peningum, eða þær eru eyðilagðar.
 •  Líkamlegt ofbeldi er t.d. þegar gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað, sparkað í það, það klipið eða slegið.
 • Rafrænt einelti t.d. er notað um þá tegund eineltis þegar internetið og/eða
  GSM símar eru notaðir til að koma niðrandi og oft á tíðum meiðandi
  upplýsingum um einstakling á framfæri.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Nemendur

Fræðsla um einelti og forvarnir gegn því heyra undir lífsleikniskennsluna, en skulu ávallt höfð í huga við allt starf með nemendum. Bekkjareglur gegn einelti skulu ræddar í hverjum bekk á hausti og veggspjöld með þeim endurnýjuð af nemendum sjálfum. Veggspjaldið skal hanga uppi í bekkjarstofunni og þannig handhægt að vísa í það þegar aðstæður kalla.

Bekkjarfundir skulu haldnir hálfsmánaðarlega hið minnsta, í öllum bekkjum. Lengd og umræða fer eftir þroska, aldri og öðrum að stæðum. Nemendur fá fræðslu um einelti, eðli eineltis, birtingarform þess og afleiðingar fyrir gerendur og þolendur. Auk þess eru samskipti og skólabragur viðfangsefni bekkjarfunda.

Brýna vel fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita ef grunur um einelti kemur upp, skriflega, munnlega eða láta foreldra vita þannig að þeir geti haft samband við umsjónarkennara.

Starfsfólk

Umsjónarkennarar leggja árlega fyrir viðhorfskönnun um líðan nemenda. Unnið er markvisst úr niðurstöðum. Allir starfsmenn skólans, íþróttahúss og félagsmiðstöðvar taka þátt í umræðuhópum sem hafa það að markmiði að fræða starfsfólk um einelti og undirbúa það undir að vinna markvisst gegn því.

Einelti þrífst vegna aðgerðarleysis fjöldans. Þess vegna þurfa allir að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Efla umburðarlyndi, virðingu og samkennd meðal barnanna.

Einelti á erfitt uppdráttar þar sem samræmi og samstarf einkennir starf þeirra sem vinna með börnunum. Ef ekki er tekið á málum strax er hætta á að eineltið breiðist út og fleiri og fleiri leggist á sveif með gerandanum.Einelti á erfitt uppdráttar þar sem jákvæður agi, festa, velvilji, hrós og væntumþykja einkennir stjórnunarhætti.

Eineltisteymi tryggir að allir þekki eineltisáætlun skólans og kynni hana á hverju hausti. eflir eftirlit innan skólans og tryggir að það sé skilvirkt. Lögð er áhersla á vitundarvakningu meðal starfsfólks, nemenda og foreldra.

Foreldrar

Foreldrar/forráðamenn skulu hafa greiðan aðgang að stefnu skólans í eineltismálum á heimasíðu skólans. Auk þess er áætlunin kynnt er fyrir foreldrum á kynningarfundum á haustin.

Foreldrum er bent á að vera vakandi yfir líðan, námi og félagslegri stöðu barna sinni.


 


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Engidalur| Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is