Veröld

Verold

Veröld er námsver fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Í aðalnámskrá, kafli 19.3., segir eftirfarandi:

„Íslenska sem annað tungumál er ætluð nemendum sem eru að ná tökum á íslensku og eiga ekki íslensku að móðurmáli. Markmið með kennslunni eru að nemendur tileinki sér og læri íslensku þannig að þeir geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Gera má ráð fyrir að nemendur fylgi hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í tvö til fjögur ár. Eftir það fylgja þeir aðalnámskrá í íslensku samkvæmt aldurstengdum viðmiðum.

Ábyrgð á íslenskunáminu hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst. Eins er brýnt að allt starfsfólk sem kemur að námi eða frístundastarfi nemendanna sé upplýst um hæfni þeirra í íslensku og taki þátt í að styðja við námið. Foreldrar bera ábyrgð á að styðja við íslenskunám barna sinna og að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku fjöltyngi.

Hópur nemenda sem stundar nám í íslenskum skólum og lærir íslensku sem annað tungumál er fjölbreyttur. Ýmislegt getur haft áhrif á íslenskunámið sem nauðsynlegt er að taka mið af: Bakgrunnur hópsins er ólíkur, móðurmál eru mismunandi og reynsla af fyrri skólagöngu mismikil. Menningarbakgrunnur nemendanna er fjölbreyttur og hver einstaklingur hefur sinn sérstaka persónuleika, áhugasvið, þekkingu og námsgetu. Aðrir þættir sem geta skipt máli eru tilfinningaleg líðan, stuðningur heimilis, væntingar, áhugahvöt og hversu mikið nemandi leggur sig fram”

Móttökuviðtöl nýrra nemanda með annað móðurmál en íslensku fara fram í Veröld. Vegna ólíkra tungumála og menningar er leitast við að fá ítarlegar upplýsingar um bakgrunn nemandans, sem mun síðan auðvelda skipulagningu á námi hans. Móttökuviðtalið er fyrsta stig af stöðumati. Seinni stig af stöðumati fara fram síðar.


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is