Þráðlausa netið

Búið er að opna fyrir þráðlaust net í Víðistaðaskóla á báðum starfsstöðvum bæði fyrir nemendur og starfsmenn. Til að byrja með mun netið virka fyrir alla nemendur frá 4.-10. bekk en síðar verður skoðað með aðgengi yngri nemenda. Um notkun nemenda á þráðlausa netinu gilda skólareglur og almennar tölvureglur. Nemendur fá eða hafa þegar fengið  aðgangsorð hjá umsjónarkennara til að komast inn á þráðlausa netið bæði með tækjum skólans og einnig eigin snjalltækjum, s.s. snjallsíma og spjaldtölvum. Sérhver nemandi  er auðkenndur á þráðlausa netinu og ábyrgur fyrir eigin netnotkun. Umsjónarkennarar yngri nemenda halda utan um aðgangsorð þeirra og stýra aðgengi eftir því hvað verið er að gera hverju sinni í kennslustund. Nemendur hafa fyrst og fremst aðgang að netinu til að stunda nám sitt og því eru takmarkanir á notkun netsins í öðrum tilgangi. Með tímanum er stefnt að auknum möguleikum í kennslu til að nýta þráðlausa netið s.s. í gegnum snjalltæki nemenda og skóla.

Við viljum því taka sérstaklega fram að komi nemendur með eigin snjalltæki í skólann eru þau alfarið á ábyrgð þeirra en ekki skólans.

Reglur um síma- og tækjanotkun gilda eins og áður en 8. – 10. bekkur má nota símann eða önnur snjalltæki í hléum á milli kennslustunda í skólanum.

Kæru foreldrar að ala börnin upp í ábyrgri netnotkun og stafrænni borgaravitund er sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Það er því mikilvægt  að þið ræðið við börnin ykkar heima um ábyrga netnotkun, fylgist vel með netnotkun þeirra og leiðbeinið þeim jafnt og þétt. Við höfum einnig rætt þessi mál margoft í skólanum og  mun sú umræða halda áfram að þróast eftir því sem þörf krefur. Með því að takast á við nýja hluti öðlumst við aukna víðsýni og opnum fyrir nýjar leiðir í náminu en við eigum áreiðanlega eftir að rekast á hindranir sem við tökumst á við og leysum.

Uppsetning þráðlausa netsins er hluti af átaki í upplýsingatækni (UT) í skólastarfi grunnskóla sem hófst árið 2014 í kjölfar tillögugerðar í skýrslu og stefnu um málið. Áhersla þessa árs er meðal annars að ljúka við að setja skjávarpa í öll kennslurými og setja upp þráðlaust net í skólahúsnæði allra grunnskóla í Hafnarfirði.


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Engidalur| Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is