Skólareglur, SMT

Agaferli og viðurlög

Skólareglur

Gert er ráð fyrir að hver skóli setji skólareglur í samráði við foreldra og nemendur. Skólinn hefur þróað í samvinnu við Skólaskrifstofu og Oregonháskóla svokallaða SMT skólafærni sem markar skólareglur Víðistaðaskóla. Víðistaðaskóli var fyrstur skóla ásamt Lækjarskóla á Íslandi að innleiða SMT skólafærni og er nú útskrifaður sem sjálfsæður SMT skóli.

Markmiðið SMT skólafærni er að stuðla að góðu námsumhverfi, æskilegri hegðun og að auka félagsfærni. SMT gengur m.a. út á að veita jákvæðri hegðun athygli og styrkja hana. Setja fram skýrar afmarkaðar reglur sem lýsa æskilegri hegðun, en ekki því sem bannað er eða má ekki gera. Skólinn hefur þrjú einkunnarorð sem eru undirstaða skólareglna: ÁBYRGÐ – VIRÐING –VINÁTTA.

SMT aðferðin

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í hverjum skóla má gera ráð fyrir þrenns konar nemendum. „Venjulegum“ nemendum (85 til 90%), nemendum sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar og eiga á hættu að þróa með sér andfélagslegt hegðunarmynstur (7 til 10%) og nemendum sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun og eru í mikilli áhættu vegna enn frekari vandamála í framtíðinni (3 til 5%). Gert er ráð fyrir því að brugðist sé við þessum þremur nemendahópum á mismunandi hátt t.d. með leiðréttingu á hegðun og atriðum sem tengjast bekkjarstjórnun. Lausnarteymi skólans vinnur náið með kennurum þeirra sem tilheyra efsta lagi þríhyrningsins ásamt þeim sérfræðingum sem skólinn hefur á sínum snærum.

SMT skólafærni

Markmið SMT-skólafærni (hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Positive Behavior Support/PBS) er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá.

SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar, sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMT verkfæra til uppalenda. PMT (Parent Management Training) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum, notkun þeirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMT foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT skólafærni.

Frekari upplýsingar fyrir foreldra má finna á heimasíðu Hafnarfjarðar

Til að stuðla að jákvæðri hegðun og fyrirbyggja óþörf hegðunarbrot eru á öllum svæðum skólans skilgreiningar um rétta/æskilega hegðun og þær reglur settar í svokallaða reglutöflu. Þá eru samræmd viðbrögð starfsfólks með áherslu á að veita jákvæðri hegðun athygli og nálgast nemendur á jákvæðan hátt. Eins eru samræmdar aðgerðir og skráningar, ef til hegðunarbrota kemur og þær færðar inn í Mentor. Þar er skráð hvað gerðist, hvar, hvenær og hver viðurlög eru og hafa foreldrar aðgang að þeim upplýsingum.

Brot á skólareglum

Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á hans málum enda verði forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum tilkynnt tafarlaust um þá ákvörðun skólayfirvalda. Ef nemandi veldur truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr tíma. Viðkomandi kennari gerir ráðstafanir sem hann telur þurfa að gera, t.d. tala við foreldri/forráðamann eða/og umsjónarkennara. Ef málið leysist ekki hjá umsjónarkennara fer málið áfram til deildarstjóra. Ef það leysist ekki þar er því vísað áfram til skólastjóra/aðstoðar -skólastjóra og þaðan til skólaskrifstofu. Kennari hefur ekki leyfi til að senda heim án vitundar stjórnenda. Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna.

Eftirseta

Lýsing á eftirsetu í unglingadeild Víðistaðaskóla 2014-15.

Forráðamenn bera ábyrgð á mætingu barna sinna. Umsjónarkennarar eiga að fylgjast með skólasókn skjólstæðinga sinna og vinna eftir skólasóknarreglum skólans. Þeir senda ástund – bréf heim til forelda- á föstudögum  í gegnum Mentor.

Þar segir um eftirsetu:

  • Í unglingadeild er litið þannig á að nemandinn skuldi þann tíma sem hann mætir ekki (á  við seinkomur og fjarvistir) og þarf hann að mæta í eftirsetu í samráði við umsjónarkennara.
  • Nemandi sem mætir meira en 10 mínútum of seint í kennslustund ber að fara á skrifstofu skólans og skrá sig í þar tiltekna bók.
  • Komi nemandi 4 x í viku eða oftar of seint skuldar hann 20 mínútur sem hann tekur út í eftirsetu. Hér er átt við tíma sem er innan 10 mínútna markanna.

 Þegar farið er yfir fjarvistarpunkta og seinkomur nemenda fyrir eftirsetu er tímabilið ein vika í senn, frá mánudegi til föstudags.

Eftirsetan er á mánudögum milli 15 og 16 næstu viku og mæta nemendur í stofu 1 til að sitja eftirsetuna.  Nemendur mæti stundvíslega.

 Ríkja skal þögn, nemendur geta unnið og/eða hlustað á tónlist við vinnu. Tölvur og símar bannaðir.

 Nemendur sem ekki mæta í eftirsetu fá skráningu.

 Nemendur sem eiga að fara í endurmenntun ( 3 stoppmiða á 6 vikum) eiga  að mæta í eftirsetu og vinna ákveðið vinnublaðið þar sem þeir ígrunda brot sín.

Skólareglur Víðistaðaskóla eru í anda leiðarljósa skólans Ábyrgð - Virðing - Vinátta

Í Víðistaðaskóla er lögð áhersla á samvinnu og að einstaklingar sýni hver öðrum virðingu og vináttu og beri ábyrgð á hegðun sinni og framkomu.

Skólareglur Víðistaðaskóla eru unnar í samræmi við 14. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 en þar segir:

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.

Skólareglurnar hafa einnig tilvísun í reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum en þar segir í 5. grein: Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska þeirra. Einnig er vísað til 6. greinar sömu reglugerðar en þar segir: Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þannig bera foreldrar einnig ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla.

Kennarar kynna skólareglur fyrir nemendum og foreldrum/forsjármönnum þeirra á hverju hausti og minna á þær eins oft og þurfa þykir. Skólareglur eru aðgengilegar á heimasíðu skólans.

 

 

Reglugerð um skólareglur í grunnskóla.

Í reglugerð nr. 270/2000 um skólareglur í grunnskóla kemur eftirfarandi m.a. fram:

Gagnkvæm virðing, kurteisleg framkoma og tillitssemi
Samskipti starfsfólks, nemenda og foreldra skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteislegri framkomu og tillitssemi.

Starfsmenn komi í veg fyrir að nemandi valdi skaða
Starfsmönnum skólans ber að koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignartjóni. Í slíkum tilvikum skal ávallt greina foreldrum/forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

Leita lausna vegna hegðunar nemenda
Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn ræður yfir til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemanda.

Úrbætur vegna hegðunar í samstarfi við foreldra
Verði ítrekað misbrestur á hegðun nemanda skal skólinn leita úrbóta í samstarfi við foreldra/forráðamenn.

Leitað til sérfræðiþjónustu vegna vandamála
Ef ekki tekst að leysa málið innan skólans skal skólinn í samvinnu við sérfræðiþjónustu skóla kanna orsakir þeirra vandamála sem um ræðir og leita leiða til úrlausna. Öll viðbrögð við óæskilegri hegðun barna skulu vera markviss þannig að þau komi nemendum að gagni við að bæta hegðun sína. Gæta skal hófs við ákvörðun og beitingu viðurlaga við brotum á skólareglum.

Má grípa til hámarksviðurlaga
Gagnvart nemanda sem ekki lætur sér segjast, þrátt fyrir undangengnar aðvaranir og áminningar, má grípa til þeirra hámarksviðurlaga að taka nemanda úr kennslu og láta hann fást við önnur viðfangsefni það sem eftir lifir skóladags. Einnig er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr kennslustundum í ákveðinni námsgrein. Við beitingu þessara viðurlaga skal tryggt að nemandi sé í umsjá starfsmanns á vegum skólans.

Vísa má nemanda úr skóla um stundasakir
Ef allt um þrýtur og nemandi lætur sér ekki segjast, ef ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg, eða hann stefnir eigin eða annarra lífi eða heilsu í hættu innan skólans, má vísa nemanda um stundasakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans.

Forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna
Foreldrum/forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna. Ávallt skal hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemenda um úrlausn málsins.

 

Um réttindi og skyldur nemenda

Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.


Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans.

Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar sérfróðra ráðgjafa skólans og skólastjóra sem leitar leiða til úrbóta, eftir atvikum til skólaskrifstofu eða að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.

Meðan mál skv. 2. mgr. eru óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundasakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Slíkri ákvörðun skal fylgja skýr leiðbeining um málsmeðferð og kærurétt forráðamanns nemanda. Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.

Takist ekki að leysa málið innan skólans vísar skólastjóri málinu til skólanefndar sem leitar lausna á því og tekur ákvörðun, eftir atvikum að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.

Ákvörðun skólanefndar skv. 3. mgr. er kæranleg til menntamálaráðuneytisins. Fer um kæru og meðferð hennar að ákvæðum stjórnsýslulaga,41. gr. laga um grunnskóla.

 

 

 Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Engidalur| Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is