Víðistaðaskóli 50 ára í dag 16. september.

16.9.2020

Víðistaðskóli var stofnaður 16. september árið 1970. Í dag 16. september 2020 eru liðin 50 ár frá stofnun skólans.

Skólastarf Víðistaðaskóla hefur í gegnum þessi 50 ár þróast og tekið miklum breytingum í takt við tímann. Fyrsta árið 1970 voru 326 nemendur í skólanum en þegar skólinn var fjölmennastur árið 1977-’78 voru 1023 nemendur í skólanum og var hann þá þrísetinn og kennt á laugardagsmorgnum . Í dag eru 530 nemendur við skólann og er hann einsetinn.

Fyrsta foreldrafélag við grunnskóla í Hafnarfirði var stofnað 24. mars 1971 við Víðistaðaskóla og ber að þakka stuðning og gott samstarf á milli félagsins og skólans öll þessi ár.

Skólastarfið hefur einkennst af frumkvöðla og þróunarstarfi í gegnum árin og má þar nefna að Víðistaðaskóli var einn af fyrstu skólunum sem tók upp tölvukennslu og var ávallt í framarlega í að tileinka sér nýjungar. Þetta faglega starf innan skólans má þakka góðum kennurum og starfsfólki í gegnum tíðina.

Í skólanum er lögð er áhersla á nemandann, nám hans og líðan. Einnig er lögð áhersla á nemendalýðræði, umhverfismennt og heilsueflingu til að styrkja og koma til móts við fjölbreytileika nemenda.

Við erum stolt af skólanum okkar og því faglega starfi sem þar fer fram.

Á þessum tímamótum óska ég nemendum okkar, starfsfólki, foreldrum og velunnurum skólans til hamingju með 50 ára farsælt skólastarf.

Það er ósk mín að skólastarfið fái að þróast áfram og blómstra í mörg ár enn.

Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla 


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is