Skólavistarreglur

Reglur um skólahverfi, umsóknir og innritun í grunnskóla Hafnarfjarðar

Gildissvið

Reglur þessar gilda um umsókn og innritun í grunnskóla Hafnarfjarðar en öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla í allt að 10 ár samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 með síðari breytingum. Samkvæmt sömu lögum er sveitarfélögum skylt að sjá til þess að skólaskyld börn sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í grunnskólalögum. Foreldri er hér notað yfir þá sem fara með forsjá barns samkvæmt barnalögum.

Það er foreldra að innrita börn í grunnskóla þegar þau hafa aldur til. Vanræksla á skráningu grunnskólavistar í grunnskóla fyrir barn með lögheimili í Hafnarfirði er barnaverndarmál og tilkynningaskylt. Það gildir sömuleiðis ef nemendur sækja ekki skóla án lögmætra forfalla þrátt fyrir að vera með skólavist.

Foreldrum ber að tilkynna skóla um lögheimilisbreytingu innan mánaðar eftir að lögheimilisskipti verða og ef nemandi færist ekki í nýjan skóla samhliða því þarf að sækja um fyrir næsta skólaár vilji hann halda á fram í sama skóla. Um meðferð umsókna fer skv. 3. gr. þessara reglna.

1. gr. Skólahverfi

Hafnarfjörður er eitt skólaumdæmi sem af skipulagsástæðum er skipt upp í nokkra hluta. Í Hafnarfirði eru átta grunnskólar reknir af Hafnarfjarðarkaupstað og er bænum skipt upp í átta skólahverfi. Hver nemendi hefur sjálfkrafa aðgang að einum skóla eftir lögheimili sínu í skólahverfi sem búseta tengist:

Skólahverfin markast af eftirfarandi:

· Áslandsskóli: Svæðið Áslandshverfi austan Ásbrautar og í norðri að Kaldárselsvegi.

· Hraunvallaskóli: Svæði á Völlunum frá Reykjanesbraut inn að Hvannavöllum.

· Hvaleyrarskóli: Svæði sem markast af Hvaleyrarbraut, Ásbraut og Reykjanesbraut inn að álveri.

· Lækjarskóli: hverfi sem markast af svæðinu innan Reykjavíkurvegar, Fjarðargötu, Lækjargötu og Reykjanesbrautar.

· Setbergsskóli: Svæði austan og norðan Reykjanesbrautar og að Kaldárselsvegi.

· Skarðshlíðarskóli: Svæði á Völlunum innan/austan Hvannavalla, gatan Hafravellir, öll Skarðshlíð og Hamranes. Ath! Tímabundin regla. Á meðan Skarðshlíðarskóla er ekki grunnskóli upp í 10. bekk hafa nemendur í því skólahverfi skólavist í Hraunvallskóla í viðkomandi árgöngum.

· Víðistaðaskóli: Svæði sunnan Álftanesvegar og vestan Reykjavíkurvegar að Fjarðargötu og í vestri að bæjarmörkum Garðabæjar.

· Öldutúnsskóli: Svæði innan Ásbrautar, Strandgötu, Lækjargötu og Reykjanesbrautar.

2. gr. Umsókn í grunnskóla Hafnarfjarðar

Umsókn um grunnskóla Hafnarfjarðar fer fram í gegnum Mínar síður á vef Hafnarfjarðar. Þeir sem ekki geta sótt um rafrænt er bent á þjónustuver bæjarins, Strandgötu 6, með aðstoð.

 3. gr. Val um grunnskóla og meðferð umsókna

3.1. Nemendur með lögheimili í tilteknu skólahverfi eiga afdráttarlausan rétt á skólavist í hverfisskóla og hafa því forgang, ef skóli þarf að takmarka nemendafjölda. Aðeins er gert ráð fyrir að nemendi sé í einum grunnskóla þrátt fyrir sameiginlegt forræði fráskildra foreldra.

3.2 Foreldrar/forráðamenn geta óskað eftir því að nemandi stundi nám í öðrum grunnskóla innan sveitarfélagsins en búseta gerir ráð fyrir. Skal um það sótt til skólastjóra viðkomandi skóla fyrir 1. febrúar ár hvert og skulu skólastjórar leitast við að koma til móts við þær óskir. Þegar skólastjórar innrita fleiri nemendur í árgang en tilheyra skólasvæðinu, skulu þeir taka mið af húsnæði og fjárhagsáætlun skólans þegar þeir samþykkja skólavist nemenda. Ákvörðun skólastjóra um skólavist nemenda er stjórnsýsluákvörðun og skal ágreiningi um afgreiðslu vísað til fræðsluráðs Hafnarfjarðar.

3.3 Við meðferð umsókna skal farið að ákvæðum laga um grunnskóla nr. 91/2008 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Sé ákvörðun tekin um synjun umsóknar, að loknu mati á athugasemdum frá foreldrum, skal skólastjóri tilkynna það í bréfi til foreldra. Ákvörðun skal vera rökstudd og foreldrar upplýstir um kærurétt skv. 47. gr. grunnskólalaga. Afgreiðsla umsókna skal að jafnaði vera lokið innan mánaðar frá því að umsókn berst til skóla. Ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla umsóknar muni tefjast upplýsir skólastjóri foreldra um ástæður tafanna og hvenær afgreiðslu er að vænta.

3.5 Allir nemendur sem hafa skólavist í sama skóla, óháð lögheimili, eiga jafnan rétt á þjónustu innan skóla út frá þeim fjármunum sem skóli hefur til ráðstöfunar.

3.6 Flytjist nemendur milli skólahverfa innan Hafnarfjarðar með lögheimili hafa þeir áfram sjálfkrafa skólavistarrétt í þeim skóla sem þeir eru skráðir í hverju sinni.

4. gr. Umsókn og innritun nemenda í 1. bekk grunnskóla

Tilkynning um hvenær hægt er að skrá nemendur í 1. bekk grunnskóla er send foreldrum í byrjun árs. Skráning fer fram í Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar og ef sótt er um hverfisskóla nemanda berst staðfesting um skráningu í skólann strax. Umsókn um nám í 1. bekk skal gerast fyrir 1. febrúar það ár sem nemandi skal hefja grunnskólanám að hausti.

Ef sótt er um annan skóla en hverfisskóla er umsókn afgreidd þegar fyrir liggur fjöldi nemenda sem hefur lögheimili í viðkomandi skólahverfi og hefur valið skólann. Um meðferð umsókna fer skv. 3. gr. þessara reglna.

Hægt er að sækja um seinkun eða flýtingu á námi í grunnskóla. Um það gilda sérstakar reglur.

5. gr. Sjálfstætt starfandi grunnskólar í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarbær getur gert samkomulag við sjálfseignarstofnanir/fyrirtæki um rekstur grunnskóla að uppfylltum skilyrðum í samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008 og annað regluverk sem tengist þeim. Við sjálfstætt rekna skóla sem starfa í umboði Hafnarfjarðarbæjar skal gerður sérstakur samningur þar sem nánari skilmálar um rekstur grunnskóla og framkvæmd skólastarfsins eru skilgreind. Árið 2018 eru tveir grunnskólar sem uppfylla þessi skilyrði, þ.e. Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði og Nú framsýn.

Hafnarfjarðarbær hefur rétt til að skilgreina hámarksfjölda nemenda sem hann samþykkir í einstaka sjálfstætt starfandi grunnskóla í samræmi við samning við viðkomandi skóla. Samþykki viðkomandi skóli inngöngu nemanda frá Hafnarfirði þurfa foreldrar að sækja sömuleiðis um þá skólavist á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar og fá skólavistina staðfesta/samþykkta sem forsendu greiðslu skólagjalda af hálfu bæjarins í skóla utan sveitarfélagsins.

Nemendur sem velja sjálfstætt starfrækta grunnskóla þurfa alltaf að greiða skóla-/dvalargjöld í samræmi við ákvarðanir viðkomandi skóla og samninga við bæjaryfirvöld óháð greiðslu bæjaryfirvalda til skólanna.

6. gr. Umsókn í sérdeildir við grunnskóla Hafnarfjarðar

Hafnarfjarðarbær hefur möguleika á að starfrækja sérdeildir eins og hann telur þörf fyrir á hverjum tíma. Nemendur með lögheimili í Hafnarfirði hafa möguleika að sækja sérdeildir uppfylli þeir skilyrði og pláss eru til staðar. Sérdeildir eru, óháð búsetu í bænum, skólaúrræði fyrir nemendur með mjög sérhæfðar náms- og þroskatengdar þarfir. Sérhver sérdeild skal tengjast einum grunnskóla sem annast allan rekstur hans og faglegt starf. Sérstakar innritunarreglur gilda um sérdeildirnar sem kveður nánar á um skipulag og starfshætti þeirra.

Í sérstökum tilvikum er skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar mögulegt, í sem mestu samráði við foreldra og barnavernd bæjarins, að vista nemendur tímabundið í úrræði sem tengjast sérdeildum. Það er í undirtekningartilvikum til að fást við flókinn vanda þegar nemandi er ekki hæfur til þátttöku í daglegu skólastarfi grunnskóla sökum alvarlegra brota á skólareglum og vegna áhættu- og/eða ofbeldishegðunar. Það er gert á þeirri forsendu að fræðsluyfirvöldum bæjarins sé skylt að tryggja öllum nemendum skólavist á hverjum tíma og að hafa skólaúrræði við hæfi fyrir alla nemendur.

7. gr. Umsókn í grunnskóla (sérdeildir meðtaldar) og sérskóla utan Hafnarfjarðar

Nemendur með lögheimili í Hafnarfirði hafa möguleika að sækja um (sér)skóla utan Hafnarfjarðar ef þeir uppfylla skilyrði sem viðkomandi skóli gerir, sérskóli (t.d. Klettaskóli) eða sérdeild í grunnskóla (t.d. deild fyrir heyrnarskerta í Hlíðarskóla) eða almennan grunnskóla, hvort sem hann er rekinn af öðrum sveitarfélögum eða er sjálfstætt starfræktur grunnskóli. Samþykki viðkomandi skóli inngöngu nemanda frá Hafnarfirði þurfa foreldrar að sækja sömuleiðis um þá skólavist á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar og fá skólavistina staðfesta/samþykkta sem forsendu greiðslu skólagjalda af hálfu bæjarins í skóla utan sveitarfélagsins.

8. gr. Flutningur milli grunnskóla Hafnarfjarðar

Vilji foreldrar að barn fari í annan grunnskóla innan bæjarins sækja þeir um flutning á milli skóla á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Skóli sem sótt er um samþykkir eða synjar umsókn til samræmis við 3. gr. þessara reglna.

9. gr. Nemendur með lögheimili í öðrum sveitarfélögum

Óski foreldrar grunnskólanemanda með lögheimili utan Hafnarfjarðar eftir að hann sæki grunnskóla í Hafnarfirði er farið með beiðnina í samræmi við viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga á hverjum tíma þar um. Óskin um skólavist skal berast viðkomandi skóla í tölvupósti ef ekki tekst að skrá slíkt á Mínum síðum á vef bæjarins.

10. gr. Fjármál

Skólar fá fjármagn til kennslu nemenda sinna með úthlutunum í apríl á ári hverju, bæði til almennrar kennslu og kennslu nemenda með sérþarfir. Er gert ráð fyrir að þá liggi að mestu fyrir með nemendafjölda í hverjum skóla á komandi skólaári. Úthlutanir til skóla gilda í eitt skólaár. Komi nemendur eða færist nemandi milli skóla innan skólaársins fylgir honum ekki fjármagn milli skóla eða nýjar fjárúthlutanir nema í undantekningartilvikum, þ.e. þarfnast mjög sértæks stuðnings.

11. gr. Skólaakstur/strætófargjald

Grunnskólanemendur með lögheimili í Hafnarfirði sem eiga aðeins rétt á skólaakstri/ strætófargjaldi ef nemandi hefur fengið skólavist í sérskóla eða sérdeild utan bæjarins eða sérdeild innan sveitarfélagsins ef sérdeild er „utan skólahverfis“ nemanda eða fjær en 1,2 km frá heimili nemanda búi hann í öðru skólahverfi en sérdeildin sem skólanum tilheyrir. Aðrir nemendur hafa ekki rétt á skólaakstri, hvort sem þeir eru í skóla í „sínu skólahverfi“, hafa valið aðra grunnskóla bæjarins, grunnskóla í öðrum sveitarfélögum eða sjálfstætt rekna grunnskóla. Sérstakar reglur gilda um skólaakstur fatlaðra.

12. gr. Upplýsingagjöf fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar

Í kynningarefni og á vef Hafnarfjarðar skal koma skýrt fram að foreldrar nemenda hafi val um grunnskóla með þeim fyrirvörum sem um getur í 3. gr. og vakin athygli á því að unnt sé að velja sjálfstætt starfandi grunnskóla sömuleiðis (sjá 5. og 6. gr.).

Reglur þessar taka gildi eftir staðfestingu þeirra í fræðsluráði Hafnarfjarðar og bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Reglurnar voru samþykktar í fræðsluráði Hafnarfjarðar þann 16. janúar 2019 og í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 23. janúar 2019.

Reglurnar á vef Hafnarfjarðar. https://www.hafnarfjordur.is/media/stefnur-og-reglur/Verklagsreglur_skolavist-i-grunnsklum-Hafnarfjardar-2019_oktober_LOK.pdf

Skólavistarreglurnar á pdf formi


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is