Skólaþing 2014

Skólaþing 21. nóvember 2014

Kæru foreldrar/forráðamenn

Skólaþing var haldið í Víðistaðaskóla fyrir foreldra og starfsmenn síðastliðinn föstudag, 21. nóvember. Þátt tóku í þinginu flest allir starfsmenn skólans ásamt nokkrum foreldrum en okkur fannst leiðinlegt að sjá hve fáir foreldrar sáu sér fært um að mæta.

Í skólanum hefur verið lögð aukin áhersla á lestur og lestrarkennslu og eru kennarar meðal annars að vinna að starfsþróun tengdri lestri og læsi í verkefninu Læsi til náms.

Markmið skólaþingsins var að styðja við þessa vinnu og styrkja samstarf heimila og skólans varðandi lestur nemenda. Ég ákvað að taka saman helstu punkta úr fyrirlestrinum og miðla til þeirra sem ekki komust á þingið svo þeir getir líka lært af þeim rannsóknum sem vitnað var í og nýtt sér til að styðja börn sín í lestrarnáminu.

Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og lektor við Háskólann á Akureyri, var með fyrirlesturinn Lestrarhestamennska. Þar kom meðal annars fram að hlutverk allra sem að nemendum standa skiptir gríðarlegu máli varðandi lestraráhuga barna. Foreldrar eru hins vegar þeir aðilar sem hafa mest áhrif á lestraruppeldi barna sinna alveg frá fyrstu mánuðum í lífi þeirra. Það sem skiptir mestu máli við gott lestraruppeldi er að foreldrar lesi reglulega fyrir börn sín, sæki bókasöfn og kíki í bókabúðir með þeim til að glæða áhuga þeirra á bókum. Fram kom einnig að mikilvægt er að börnin sjái foreldra sína lesa bækur og að þau finni að þeir hafi áhuga á bóklestri og ræði m.a. um bækur við börn sín. Rannsóknir sýna að feður sem sjást lesa og sýna áhuga á lestri hafa sérstaklega mikil áhrif sem fyrirmyndir í þessu samhengi.

Einnig kom fram að það virkar lestrarhvetjandi fyrir börn ef bækur eru sýnilegar á heimilum. Brynhildur ræddi um mikilvægi þess að þjálfa úthald til lestrar og talaði um lestur sem íþrótt sem þarf að þjálfa til að ná árangri og er heiti fyrirlestrarins Lestrarhestamennska komin út frá þessari samlíkingu. Nemendur þurfi að þjálfast í að lesa smátt og smátt í lengri tíma og að það þurfi elju og úthald til þess. Foreldrar geti stutt við þetta með margvíslegum leiðum á heimilum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góð lestrarfærni eykur hugtakaskilning og þessi atriði hafa mikil áhrif á námsárangur barna til hins betra í öllum námsgreinum svo það er til mikils að vinna.

Eftir fyrirlesturinn var farið í hópavinnu og urðu þar fjörugar umræður og komu margar skemmtilegar hugmyndir fram um verkefni tengd lestri sem verða áreiðanlega einhverjar nýttar í skólastarfinu. Það var hugur í fólki og samstaða um að taka höndum saman og hvetja nemendur áfram til

að æfa lestur eins og aðrar íþróttagreinar. Kæru foreldrar þarna komið þið sterkir inn til samstarfs um bætta lestrarmenningu barna okkar.

Mikil ánægja var með þingið og áhugi í hópnum.

Með lestrarkveðju

Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri


Víðistaðaskóli | Víðistaðatún Hrauntunga 7, 220 Hafnarfjörður
Engidalur| Breiðvangur 42, 220 Hafnarfjörður
Sími 595 - 5800 | Netfang vidistadaskoli@vidistadaskoli.is